Text view
Hverf er haustgríma
Title | Hverf er haustgríma |
---|---|
Book Author | Jón Árnason |
Language code | isl |
Einhverju sinni síðla hausts bar svo til að sjómaður nokkur
kom með skipi til Reykjavíkur og ætlaði hann að dveljast þar
um sinn. Eigi er þess getið hvað hann hét. Skipið sem hann
kom með varð seint fyrir svo að langt var liðið á kvöld er
það lagðist við hafnarbakkann. Steig maðurinn nú á land með
föggur sínar sem hann hafði í poka eins og sjómönnum er títt.
Ókunnugur var hann í bænum og átti þar ekki vissan næturstað
en einhver hafði ráðlagt honum að leita sér gistingar í
Herkastalanum. Spurði hann til vegar og segir ekki af ferðum
hans fyrr en þangað var komið. Voru þá flestir gengnir til
náða enda komið fram á rauðanótt. Tókst honum þó að koma
boðum til húsráðanda og beiðast gistingar en fékk það svar að
slíks væri enginn kostur því að hvert rúm væri skipað.
Heldur
hann við svo búið út á strætið og hugsar ráð sitt. Fátt manna
var á ferli enda veður dimmt og drungalegt. Hittir hann þó
einhverja að máli þar á götunni og spyrst fyrir um gististaði
í bænum en enginn gat leyst vandræði hans. Reikar hann nú
eftir götunni uns hann nemur staðar við búðarglugga einn.
Eigi hefur hann staðið þar lengi er hann sér dökkklædda
stúlku við næsta glugga. Hugsar hann þá með sér að engu sé
spillt þótt hann hafi tal af stúlkunni ef svo ólíklega mætti
verða að hún gæti vísað honum á gististað. Heldur hann nú í
áttina til stúlkunnar en jafnskjótt leggur hún af stað og fer
undan. Greikkar hann þá sporið en eigi dregur saman með þeim
heldur. Þykir honum þetta kynlegt og hugsar með sér að
stúlkan þurfi ekki að vera hrædd við sig enda skuli þau ekki
skilin að skiptum við svo búið og hraðar nú göngunni sem mest
hann má uns hann hleypur við fót en það kemur fyrir ekki.
Stúlkan er jafnlangt á undan honum sem fyrr. Einhver umferð
var á götunni og þó lítil en ekki gaf maðurinn neinn gaum að
vegfarendum heldur herti gönguna sem mest hann mátti á eftir
stúlkunni.
Þannig þreyttu þau lengi þessa för um dimmar
göturnar og þóttist maðurinn skynja að þau færu langa hríð
eftir breiðu stræti uns þau væru komin utarlega í bæinn. Allt
í einu víkur stúlkan til vinstri handar og snýr inn á
hliðargötu er lá ofan í móti og þóttist maðurinn finna þar
fjöruþef nokkurn. Eigi hafa þau lengi farið götu þessa áður
en stúlkan nemur staðar við hús eitt lítið og hverfur þar
inn. Hvergi var ljós í glugga og dimmt allt umhverfis. Hurð
féll ekki fast að stöfum á eftir stúlkunni og fer maðurinn
inn í húsið.
Niðamyrkur var þar inni og þóttist maðurinn
skynja að hann væri staddur í allstóru herbergi. Eldfæri
hafði hann engin og þreifar nú fyrir sér uns hann finnur bekk
einn allháan. En með því að maðurinn var bæði þreyttur og
móður af göngunni sest hann á bekkinn og bíður átekta.
Steinhljóð var í húsinu. Ræður maðurinn því af að láta fyrir
berast þar sem komið var, leggst fyrir á bekknum og sofnar
skjótt.
Dreymir hann þá að stúlkan, förunautur hans, kemur
þar til hans og er ærið gustmikil. Skiptir það engum togum að
hún ræðst á hann þegar og takast með þeim harðar sviptingar.
Það þykist maðurinn finna að stúlkan reyni jafnan að taka
fyrir kverkar honum og er hún svo áköf að hann má hafa sig
allan við að verjast. Kemur þar að lokum að hún hefur hann
undir og nær á honum kverkataki. Þykist hann aldrei fyrr í
slíka raun komist hafa og neytir ýtrustu orku til þess að
verjast meinvætt þessari. Tekst honum þá með einhverjum hætti
að brjótast á fætur og losa sig.
En í því vaknar hann og
liggur þá á gólfinu ofan á einhverju hrúgaldi, þreifar fyrir
sér og þykist finna að það sé lík. Varð hann þá gripinn
ofsalegri hræðslu, spratt á fætur og var það eitt í hug að
komast sem fyrst á brott. Litla skímu lagði inn um rifu á
hurðinni en ekki aðgætti hann þó frekar hversu umhorfs var í
húsinu heldur þaut á dyr og var þá tekið að birta af degi.
Hleypur hann nú upp götuna uns hann hittir fyrir sér
verkamenn nokkra sem voru á leið til vinnu sinnar. Sáu þeir
þegar hve mjög manninum var brugðið og spurðu hvernig háttað
væri um ferðir hans. Gat hann lítið sagt þeim í samhengi enda
virtist hann blanda saman draumi og veruleika. Þó gat hann
bent þeim á húsið þar sem hann hafði gist. Litu þeir þá hver
á annan og þótti sýnt að maðurinn væri eigi með sjálfum sér.
Varð það því að ráði þeirra að fara með hann ofan á
lögreglustöð. Þegar þangað kom endurtók maðurinn sögu sína
fyrir lögreglumönnum þeim sem á verði voru og þó í nokkru
meira samhengi en fyrr. Lögregluþjónarnir spurðu hann hvort
hann mundi geta rakið leiðina sem hann hefði haldið á eftir
stúlkunni eða fundið húsið þar sem hann hefði átt náttstað.
Hann kvaðst vel mega freista þess og húsið mundi hann að vísu
finna.
Fór nú lögregluþjónn með honum og héldu þeir fyrst að
Hótel Ísland. Skammt þaðan þóttist hann þekkja búðargluggann
sem hann hefði staðið við þá er hann sá stúlkuna. Síðan rakti
hann leið þeirra um Austurstræti og Lækjartorg, inn
Hverfisgötu allt að Frakkastíg. Þar sveigði hann niður
stíginn og létti eigi fyrr en hann kom að líkhúsi Franska
spítalans. Þar kvaðst hann hafa dvalist um nóttina. En er
hann ætlaði að fara inn í húsið var hurðin harðlæst og þótti
honum það næsta kynlegt.
Lögregluþjónninn hafði lykil sem
gekk að skránni eða fékk hann á sjúkrahúsinu. Síðan opnaði
hann húsið. En þegar inn var komið sáu þeir að konulík lá á
gólfinu við hliðina á líkbörunum en við endann á þeim lá poki
sjómannsins með föggum hans í.
(Pálmi Hannesson: Mannraunir. -- Eftir sögn Brynjólfs Bjarnasonar, fyrrv. ráðherra.)
Netútgáfan - júní 1997