Folk Tale

Sagnir af torfa í klofa

AuthorJón Árnason
Book TitleÍslenzkar þjóðsögur go æfintýri
Publication Date1852
LanguageIcelandic
OriginIceland

Torfi er maður nefndur og var Jónsson Ólafssonar Loftssonar hins ríka á Möðruvöllum. Hann átti Helgu Guðnadóttur frá Kirkjubóli í Langadal, skilgetna systur Bjarnar bónda Guðnasonar í Ögri.

Torfi var auðmaður mikill, því var hann kallaður ríki Torfi; hann var afburðamaður til krafta, því var hann kallaður sterki Torfi. Hann bjó í Klofa á Landi í Rangárvallasýslu, því var hann ýmist kallaður Klofa-Torfi eða Torfi í Klofa.

Hann hafði Rangárvallasýslu og Árnessýslu báðar til forráða frá hér um bil 1490, en Árnessýslu eina frá því Jón Ólafsson faðir hans dó hér um bil 1480. Hann var héraðshöfðingi og yfirgangsmaður mikill og deildi einatt illdeilum við stórhöfðingja sem nú mun sagt verða.

DEILUR TORFA OG STEFÁNS BISKUPS

Meðan Magnús Eyjólfsson mókolls sat að stóli í Skálholti (1477-1490) fór allt fram með honum og Torfa meinlauslega, en annað hljóð kom í strokkinn er Stefán Jónsson varð þar biskup; því þeir Torfi eldu einatt grátt silfur saman.

Var sú orsök til þess að um þær mundir var siðleysi mikið hér í landi, en sú landsvenja þá að biskupar dæmdu öll kvennamál og lögðu fésektir þungar á afbrotamenn þeim til fjörlausnar eða undanþágu skrifta og kárína ef auðmenn áttu í hlut, og leystu þá síðan; þessu undu margir allilla.

Stefán biskup var siðavandur og gekk ríkt eftir um slíkar sektir; þótti hann af því harður og refsingasamur. Þeir sem fengu því við komið stukku því undan biskupi og flýðu á náðir Torfa er þá var mestur héraðshöfðingi sunnanlands og lét sjaldan hlut sinn liggja við hverja sem um var að eiga.

Torfi tók og alla á ásjá sína sem hann mátti svo biskup kom hvorki rétti né refsingu yfir þá og gengu þessir afbrotamenn óleystir og ókvittir við biskup. Var af því öllu saman megn óvild með biskupi og honum.

Það var einn vetur er Þjórsá lá öll fjalls og fjöru á milli að Torfi bjóst að heiman og hafði með sér 30 manna; ætlaði hann að fara að Stefáni biskupi í Skálholti og taka hann höndum er staðarmenn voru flestir komnir til vers suður við sjó.

Riðu þeir Torfi þá út að Nautavaði á Þjórsá gegnt Þjórsárholti fyrir neðan ferjustaðinn á Hrosshyl. En er þeir komu að ánni sýndist þeim auður áll eftir henni miðri. Sneru þeir þar því frá og riðu með henni allt ofan í Holt að bæ þeim er heitir í Kaldárholti. Þar sneru þeir aftur við svo búið af því þeir þóttust ekki sjá fyrir enda álsins svo ekki varð af aðför Torfa við biskup í það sinn.

En Þjórsá var riðin á ísi þann sama dag bæði fyrir og eftir og þótti því Torfa hafa hér glapnast sýn og hafa farið litla sæmdarför.

Torfi undi og stórilla við þessa för sína og þótti biskup í meira lagi brögðóttur er hann hafði villt svo herfilega sjónir fyrir sér. Bjóst hann því að hefna sín nær sem færi gæfist.

Það var eitt sumar að Torfi reið að heiman með flokk manna og kom í Skálholt svo að fámenni var heima á staðnum. En er menn sáu ferð Torfa bauð biskup að loka öllum dyrum. Torfi gekk fyrst til kirkju og þaðan ofan að norðurdyrum, drap stórt högg á dyrnar og spurði hvort skolli væri inni.

Biskupssveinn sá er Loftur hét hljóp herklæddur til dyra og mælti:

"Inni er skolli og ekki hræddur; bíddu þess að hann er klæddur, -

með leyfi að segja, déls hórusonurinn, hver sem þú ert."

Torfi svaraði: "Ertu þar Stráka-Loftur? Þessu mundir þú ekki ansa ef þú þættist ekki yfir fleiru búa en ég veit af."

Varð þá enn ekki af tíðindum heldur í þessari aðför Torfa og reið hann heim með förunautum sínum við lítinn orðstír.

En þótt Torfi sæi að biskup hefði bæði skiptin orðið sér giftudrýgri lét hann allt um það ekki af áreitni við biskup þó hér sé ekki greint frá atvikum.

JARÐHÚS TORFA

Torfi átti eigi aðeins í styrjöldum við þá sem nú var getið, heldur og aðra miklu fleiri er hann gat búist við að gerðu sér heimsókn er minnst varði. Þess vegna hafði hann, auk fjölmennis þess er hann hélt jafnan, sterkar gætur á að fjandmenn kæmi ekki flatt upp á sig.

Hann átti sterkan og rambyggðan húsabæ í Klofa. En það þótti honum ekki heldur einhlítt; hann lét því grafa leynigang eða gjöra jarðhús undir bænum og lá það suður og austur undir túninu öllu. Var gengið í annan enda jarðhússins í svefnherbergi Torfa. En hinn jarðhússmunninn segja sumir að lægi út fyrir austan túnið í Klofa, en aðrir að hann væri í hesthúsi Torfa austur á Klofatúni.

Hvort sem er um það, var jarðhús þetta ekki smuga ein eða rangali undir jörðunni, heldur sterklega uppgerður gangur með stoðum og bitum svo ekki þurfti að óttast fyrir að það félli niður.

Ekki var heldur dimmt í húsinu, því Torfi hafði látið gjöra glugga á því með nokkru millibili og hagað svo til að undir hverjum glugga miðjum væri biti. Á þessa bita lét hann breiða sauðargærur blautar, bæði til þess að það liti út líkara jarðgryfju ef komið væri að í myrkri og svo til þess að óvinir hans ef þeir kynnu að álpast þar ofan í gætu ekki náð neins staðar handfesti nema í gærurnar. En svo var hátt undir bitana að það var einskis manns meðfæri að komast upp á þá af gólfi svo þeir sem niður duttu gátu ekki komist úr jarðhúsinu fyrr en Torfi lét annaðhvort drepa þá eða gaf þeim líf ella.

Þó var jafnframt annar aðaltilgangur Torfa með jarðhús þetta; þangað ætlaði hann að flýja sjálfur ef ófrið bæri að á náttarþeli eða hastarlegar en svo að hann gæti náð til húskarla sinna er hann lét jafnan vera í starfi þegar hann hélt kyrru fyrir, og því er það að sumir segja að jarðhúsmunninn lægi út fyrir austan túnið að þaðan átti hann skammt að komast í hraunið fyrir austan Klofa og leynast þar. En hinir hafa það og til síns máls sem segja að uppgangur úr jarðhúsinu hafi verið í hesthúsinu austur á túninu að þar gat hann hlaupið á hest og komist svo undan.

Vér kunnum hvorki að segja frá því hversu marga menn Torfi hefur látið taka í jarðhúsi þessu né heldur hvað oft hann hafi þurft sjálfur á því að halda til að forða þar lífi sínu; en hitt er hér um bil áreiðanlegt að jarðhúsið hefur verið til; því ekki eru yfir fimmtíu ár síðan að austurbærinn í Klofa var tekinn og var þá grafið upp grjót úr bæjarstæðinu.

En við það fundust staurar sem stóðu upp á endann í bæjarstæðinu með nokkru millibili, ákaflega gildir og langir, ef þeir hefðu tollað saman fyrir fúa. Hafa menn það fyrir satt að þessir staurar hafi verið stoðirnar í jarðhús Torfa er allt var þá sigið saman sem von var eftir meir en þrjú hundruð ár.

TORFI FER AÐ LÉNHARÐI FÓGETA

Meðan Torfi hélt Árnessýslu var fógeti á Bessastöðum sem Lénharður hét. Hann var illur maður og ódæll og veitti mikinn yfirgang. Hann fór austur í sýslu Torfa með ránum, settist á Arnarbæli í Ölfusi og heitaðist um að drepa Torfa.

En Torfi fór að honum úti á Hrauni í Ölfusi og tók hann af lífi.

Það tiltæki Torfa lét biskup sér vel líka og bað hann hafa það verk unnið manna heppnastan. Gekk þó Torfi til skrifta við biskup, en lauk honum litlar fésektir. Þó var ekki þelalaust með þeim.

BYGGÐ Í TORFAJÖKLI

Það er mælt að plágan seinni hafi komið út hingað með enskum kaupmönnum í Hafnarfjörð; hafi þeir haft klæði að selja ásamt öðrum varningi, en er þeir röktu sundur einn klæðastrangann hafi rokið þar úr gufa bláleit.

Þeir Jón prestur Egilsson og Jón sýslumaður Espólín eftir honum segja "að mönnum hafi þótt sem fugl kæmi úr klæði bláu", og setja útkomu plágunnar árið 1493. Eftir það dreifðist hin bláa gufumóða skjótt út og fylgdi henni sótt mikil og mannskæð hvervetna þar sem hana bar yfir.

Mannfallið byrjaði um alþing og geisaði fram á haust til þess er veður kólnaði. Urðu svo snögg umskipti með sótt þessari að komið var að konum þar sem þær sátu dauðar undir kúm á stöðlum við mjólkurfötuna og við keröld í búrum. Þetta sumar eyddust bæir mjög um allt Suðurland og því nær vestur að Gilsfirði, og víða lifðu ekki fleiri eftir en tveir eða þrír menn og sumstaðar ungbörn er sugu mæður sínar dauðar er til var komið. Tíðum voru grafnir þrír og fjórir á dag við kirkjur og þó sex eða sjö fylgdu líkum til grafar komu ekki aftur fleiri en þrír eða fjórir; hinir dóu á leiðinni til eða frá eða fóru og sjálfir í þær grafir er þeir tóku að öðrum.

Þegar þetta var tíðinda var Torfi Jónsson í Klofa orðinn héraðshöfðingi í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. En er hann frétti að drepsótt þessi var komin austur yfir Hellisheiði austur í Ölfus tók hann upp búslóð sína og fór burtu frá Klofa með allt er hann mátti með komast og þurfti nauðsynlega og fór með það og hyski sitt allt upp á Landmannaafrétt.

Sunnan til í þeim afrétti er jökull einstakur og veit annar endi í austur, en hinn í vestur. Hann er í fullt austur af Heklu eða lítinn mun sunnar. Þangað stefndi Torfi með skuldalið sitt og flutninga. Hann hélt austur með jöklinum norðanverðum þangað til hann kom að kvísl þeirri er Námskvísl heitir. Hún rennur úr jöklinum norður í Tungnaá. Með kvísl þessari var frjóvsamt land og fagurt og lá gras í legu. Torfi hélt upp með kvíslinni og eftir gili því er hún féll úr og heitir það nú Jökulgil; þar fór grasið að þverra og verða grýtt með kvíslinni.

Töluðu þá húskarlar Torfa um að þeir vildu láta fyrirberast í graslendinu niður með kvíslinni því þar þótti þeim allbyggilegt og trauðla mundi Torfi bóndi fá sér fegri og kostabetri bústað þó hann færi lengra með þá upp í svarta gilið sem þá luktist nálega af hömrum yfir höfðum þeirra. Torfi varð áskynja um mögl húskarla sinna og bað þá láta sig einráðan því fyrri hefði hann séð fyrir þeirra kosti en nú svo dugað hefði.

Eftir það héldu þeir inn eftir gilinu og er þeir höfðu farið um hríð sáu þeir að úr suðri kom aftur birta á móti þeim; opnaðist þá gilið aftur og komu þeir fram í víðan dal og fagran er þeim virtist liggja eftir endilöngum jöklinum frá austri til vesturs svo hvergi var skarð að sjá nema þar sem þeir komu inn í hann frá norðri og kvíslin rann út. Svo langt sem þeir eygðu umhverfis dal þenna efst var ekki annað að sjá en jökulinn og heiðan himininn. En þegar jöklinum sleppti að neðan tóku við hlíðar skógi vaxnar allt ofan undir láglendið, en þar sem skógurinn hætti voru sléttar grundir jafnfagrar og þær voru grösugar.

"Hér skulum vér láta fyrirberast um hríð," sagði Torfi, "og mun móðan bláa verða mannskæð ef hún vinnur oss mein í dal þessum."

Eftir það lét Torfi taka til bæjargjörðar og var þess ekki langt að bíða að þar reis upp veglegur bær enda átti Torfi mörgum á að skipa.

Um sumarið lét Torfi húskarla sína yrkja dalinn öllum venjulegum sumaryrkjum í sveit og stóð þar búhagur hans með hinum mesta blóma því landkosti vantaði ekki og þóttust engir þeirra er með honum voru hafa séð slíka.

Þótt Torfi léti menn sína varast allar samgöngur milli dalsins og byggðarinnar á Land eða Rangárvöllu til þess að sóttin kæmi því síður í dalinn lét hann eigi að síður tvo menn er hann trúði best, fara í hverjum hálfum mánuði fram á fjallabrúnirnar þaðan sem þeir sáu til byggðarinnar til að vita hvað gufumóðunni bláu liði.

En svo liðu langir tímar að jafnan komu þeir með þau ógeðstíðindi að móðan lægi yfir byggðinni og tæki upp í miðjar fjallahlíðar umhverfis byggðina og væri að sjá yfir hana sem bláleitt haf, en enga sæju þeir mannaferð um héruðin.

Þó kom þar um síðir að sendimenn þessir báru Torfa þau tíðindi að móðan væri horfin; en nokkra stund dvaldi Torfi eftir það í dalnum þangað til honum þótti komið fyrir alla von að sóttin mundi haldast lengur í sveitum þeim sem hann hafði spurn af. Tók hann sig þá upp og flutti sig aftur í byggðina og reisti að nýju bú í Klofa og varð hvorki honum né neinum af hans mein af drepsóttinni.

Ekki er þess getið hversu lengi Torfi hafi verið í jöklinum er síðan dregur nafn af honum og er kallaður Torfajökull. Það er sagt að þegar Torfi fór að flytja aftur úr jöklinum til byggða hafi nokkur af hjúum hans ekki viljað fara úr dalnum, hafi hann og látið það eftir þeim og gefið þeim húsabæ sinn eins og hann stóð.

Síðan hefur það verið haft fyrir satt allt til skamms tíma að í Torfajökli væru útilegumenn og hafi ferðamenn er farið hafi fjallabaksveg austur í Skaftafellssýslu af Rangárvöllum sunnan undir Torfajökli þótst kenna reykjareim af jöklinum með norðanátt líkan því er skógarviði væri kynt. Það var og trú manna að þessir útilegumenn yllu illum heimtum á sauðfé af afréttum er ósjaldan hafa að borið.

En fyrir fáum árum er það staðreynt að eitthvað veldur annað illum heimtum en útilegumennirnir í Torfajökli því Landmenn tóku sig til og könnuðu Jökulgilið og komust svo langt inn í gilið að þeir sáu að dalurinn var allur orðinn fullur af jökli og óbyggilegur og því allsendis ólíkur því sem sagan segir að hann hafi verið á dögum Torfa.

AÐ GJALDA TORFALÖGIN

Eins og Torfi var uppivöðslusamur og ófyrirleitinn ef hann átti við stórmenni og hlutsamur í sýslum þeim sem hann hélt af konungi, eins var hann mikill búsýslumaður heima fyrir og heldur ágengur og kenndu sveitungar hans og nágrannar helst á því.

Eftir það að Torfi hafði flutt byggð sína aftur úr jöklinum að Klofa fann hann það í mörgu hversu landkostir voru miklu lakari í Klofa en í jökuldalnum, en einkum brá honum við vetrarbeitina því enginn skógur er nærri Klofa.

Eins og nú er byggðum skipað á Landi stendur Klofi ofan til í sveitinni og er þaðan löng bæjarleið út að Skarði. Sá bær stendur undir fjalli sem Skarðsfjall heitir og er meginhluti fjallsins fyrir norðan bæinn. Þegar fjallinu sleppir að norðan liggja hálsar úr því enn lengra til norðurs - þeir heita Skarðshálsar - og er ekki nema kippkorn frá hálsaendunum norður að Þjórsá. Hálsar þessir hafa í fyrri daga verið allir skógi vaxnir sem enn má sjá vott til þar víða í jarðföllum og giljum þó nú sé þar allur skógur eyddur fyrir löngu bæði af manna völdum og náttúrunnar.

Til þess að geta notað skógarlandið á hálsunum til vetrarbeitar þar sem þeir liggja svo hátt að aldrei hefur tekið fyrir beit í þeim lét Torfi bóndi hlaða geysiháan og breiðan garð frá Klofa og allt norður í Skarðshálsa, yfir Klofaland, Merkurland og Skarðsland til að reka á honum sauði sína sem sumir segja að hafi verið 600, en aðrir 900 að tölu.

Garður þessi lá yfir allt einar lágheiðar þar sem ýmist skiptast á hólar eða dældir. En ef snjóavetur er fyllast allar dældirnar svo ókleift verður fyrir fé að komast af einum hólnum á annan er jafnan standa upp úr.

Af því garðurinn var hið mesta mannvirki fóru margir langt að til að sjá hann auk þess sem leið flestra Upplandsbúa lá þar yfir til kirkju að Skarði.

En svo var ríki Torfa mikið að engum leiðst að sjá garðinn eða fara yfir hann nema hann styngi þrjá hnausa og legði í garðinn og voru þær álögur kallaðar "Torfalög", og er sagt að þaðan sé dregið orðtæki það sem enn er haft er sá er engan hlut á að máli grípur í að gjöra það sem honum er ekki skylt að vinna, en vinnur þó ekki meir að öllu verkinu en Torfi lagði á þá er sjá vildu sauðagarð hans eða svo aðeins "að maður leysi hendur sínar".

Fyrir garði þessum sér enn deili bæði sunnan til í Merkurheiði og norðan til í Skarðsheiði og liggur hann í beina stefnu norður á Skarðshálsa. Í hrauninu milli heiðanna sést hann ekki því þar hefur hann blásið af eða brunnið eins og annar jarðvegur sem þar var til forna.

ÓFALL TORFA Á ALÞINGI

Það var eitt sinn á alþingi er Torfi gekk til lögréttu að mæla lögskil í björtu veðri og heiðskíru að allt í einu sáu menn draga upp svartan hnoðra lítinn norður yfir Skjaldbreið. En sem hnoðrinn færðist nær sýndist mönnum hann vera í fuglslíki og stefna á Þingvöll.

Þegar fuglslíki þetta kom yfir völlinn steyptist það yfir Torfa. En honum brá svo við að hann rak upp ógurlegt hljóð og varð of sterkur svo að margir urðu að halda honum, og tókst það um síðir að koma honum í bönd. Þar með var augnaráð hans svo ofboðslegt með ópi og ýlfran að öllum stóð ógn af hvorutveggja enda þótti þetta ekki einleikið.

Urðu þá til góðgjarnir menn með vinum Torfa að biðja Stefán biskup að líkna honum og bæta mein hans. Biskup lét þá tilleiðast fyrir bænastað þeirra og nauðsyn Torfa þótt biskupi þætti hann ekki slíks frá sér maklegur; gekk hann þó þangað sem Torfi lá, með öllum kennilýð, og hvolfdi stakksermi sinni yfir höfuð honum, féll á kné og allir með honum til bænar.

Við lestur og söngva biskups og klerka hans sefuðust kvalir Torfa svo að honum smábatnaði síðan. Eftir þetta batnaði mikið vinfengi Torfa og biskups, en þó greri aldrei um heilt með þeim.

Dýrkeypt var og konu Torfa kirkjuleg hans í Skálholti því Stefáni þótti hann varla kirkjugræfur; en þar hafði Torfi kjörið sér leg í lifanda lífi. Hann dó skömmu eftir aldamótin 1500.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - júlí 1998


Text view