trans-8232

Skessan á steinnökkvanum

AuthorJón Árnason
Book TitleÍslenzkar þjóðsögur go æfintýri
Publication Date1852
ATU463
LanguageIcelandic
OriginIceland

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu son þann, er Sigurður hét. Hann var snemma frábær, rammur að afli, fimur við alla leika og fríður sýnum. Þegar faðir hans var farinn að þyngjast fyrir elli sakir, kom hann að máli við son sinn og sagði, að honum væri nú orðið mál að sjá sér fyrir sæmilegu kvonfangi, því ekki væri víst, hvað sín nyti lengi við úr þessu, en tign hans þætti sér þá vera með fullum blóma, ef hann fengi kvonfang samboðið sér. Sigurður tók þessu ekki fjarri og spurði föður sinn, hvar hann liti helst til um konuefnið. Kóngur sagði honum, að úti í löndum, þar sem hann tiltók, væri kóngur, sem ætti dóttur væna og fríða, og ef Sigurður fengi hennar, þætti sér sá ráðahagur ákjósanlegastur.

Eftir það skildu þeir feðgar, og bjó Sigurður kóngsson sig til ferðar og fór þangað, sem faðir hans hafði honum til vísað, gengur svo fyrir kóng og biður dóttur hans sér til handa. Verður það mál auðsótt við kóng, en þó með því skilyrði, að Sigurður dvelji þar svo lengi sem hann má, því kóngur var mjög vanheill og lítt fær til að stjórna ríki sínu. Sigurður gekk að þessum kostum, en tilskildi þó, að hann fengi fararleyfi heim í ríki sitt, þegar sér kæmi fregn um lát föður síns, er hann kvað vera kominn að fótum fram.

Eftir þetta drakk Sigurður brúðkaup sitt til kóngsdóttur og tók til ríkisstjórnar með kónginum tengdaföður sínum. Sigurður og kona hans unnu hvort öðru hugástum, og því alúðlegri urðu samfarir þeirra, er hún að ári liðnu fæddi honum son, fríðan og fagran. Eftir það liðu fram tímar, uns drengur sá var kominn á annað árið; komu þá Sigurði þau orð, að faðir hans væri dáinn. Bjó Sigurður sig nú til burtferðar með konu sinni og syni og fór á einu skipi.

Þegar þau höfðu siglt nokkra daga, tók byrinn af fyrir þeim, og gjörði blæjalogn, er þau áttu ekki lengra heim en eins dags sigling; lá þá skipið kyrrt og morraði í byrleysunni. Þau hjónin voru þá stödd ein uppi á þilfari, því flestir aðrir voru gengnir til svefns á skipinu. Sátu þau þar og töluðust við um stund og höfðu son sinn hjá sér. Að nokkrum tíma liðnum sigraði Sigurð svo mikill svefn, að hann mátti ekki vaka. Gekk hann þá niður undir þiljur og leggst fyrir. Var drottning þá ein eftir uppi á þiljum með son þeirra og lék sér að honum.

Þegar góður tími var liðinn, frá því Sigurður kóngur var ofan farinn, sér drottning sorta nokkurn á einum stað á sjónum og sér, að hann þokast heldur nær. Eftir því sem hann nálgast skipið betur, getur hún deilt, að það muni bátur vera, og er honum róið; þar með sér hún einhverja mannsmynd í bátnum.

Kemur svo um síðir, að bátur þessi leggur að skipinu, og sér drottning, að það er steinnökkvi, og því næst kemur upp á skipið ógurleg tröllkona og illúðleg.

Drottning varð hræddari en frá megi segja, en kemur ekki upp neinu orði né heldur gat hún hreyft sig úr stað til að vekja kóng eða skipverja. Tröllkonan gengur þá að drottningu og tekur af henni sveininn og setur hann á þilfarið; síðan tekur hún drottningu og færir hana úr öllum skrúðklæðum hennar, svo hún stendur eftir í línklæðum einum. Fer svo tröllkonan í föt drottningar, og verður þá nokkurt mennskumót að henni.

Loksins tekur hún drottningu og setur hana á nökkvann og segir: "Mæli ég um, og legg ég á: Linntu hvorki ferð né flugi, fyrr en þú kemur til bróður míns í undirheimum." Sat drottning þá sem höggdofa og aðgjörðarlaus; en nökkvinn undir henni sveif þegar frá skipinu, og leið ekki á löngu, áður hann var kominn úr augsýn frá skipinu.

Þegar ekki sást lengur til nökkvans, fór sveinninn kóngsson að hrína, og var það hvort sem annað, að tröllkonan lagði sig lítt til að hugga hann, enda tjáði það ekki. Gekk hún þá með sveininn á handlegg sér niður undir þiljur, þar sem kóngur svaf, og vekur hann með hörðum átölum, að hann hirði ekki um, hvernig um sig fari, þar sem hún megi vera ein með son þeirra á þiljum uppi, en hann sofi og hrjóti og öll skipshöfnin með honum; telur hún það mikla ónærgætni og ofætlun af honum að láta engan annan vaka hjá sér á skipinu, því fátt segi af einum, enda sé nú svo komið, að hún fái með engu móti huggað sveininn og kysi því helst að komast þangað með sveininn, sem hann ætti að vera, og væri þess nú kostur, ef nokkur dugur eða dáð væri sýnd, þar sem kominn væri blásandi byr.

Sigurði kóngi kemur það mjög á óvart, að drottning hans er svo fasmikil og harðorð, er aldrei hafði eitt móðsyrði til hans talað. Hann tekur þó ávarpi hennar með blíðu, og þykir henni mikil vorkunn, þó hún sé ömruleg. Hann leitaðist við að hugga með henni sveininn; en það tjáir ekki.

Fer hann þá til og vekur skipverja og biður þá taka til segla, því nógur var byr kominn og beinn til hafna. Því næst var siglt sem mest mátti, og segir ekki frá ferðum þeirra, fyrr en þeir komu við land, þar sem Sigurður átti fyrir að ráða; fór hann þá til hirðar sinnar, og voru þar allir hryggir yfir fráfalli föður hans, en glöddust, er þeir höfðu hann aftur heimt heilan á hófi, og var honum gefið kóngs nafn, og tók hann við ríkjum.

Sveinninn kóngsson numdi nálega aldrei af hljóðum hjá móður sinni, frá því hann var skilinn eftir einn hjá henni á þilfarinu, sem áður er sagt, þótt hann væri áður mesta spektarbarn, svo að kóngur varð að fá honum fóstru, eina af hirðmeyjunum. Þegar sveinninn var til hennar kominn, tók hann skjótt spekt sína aftur og hina fyrri værð.

Nú er frá því að segja, að eftir sjóförina fannst kóngi sem drottning væri mjög breytt orðin í mörgum háttum og það ekki til batnaðar. Einkum þótti honum hún mikilfengari og stygglyndari og óviðfelldnari en hann átti von á. Þó virtist hún kurteis og látprúð; en fljótt bar að því, að fleiri kenndu kaldlyndi hennar en kóngur.

Með kóngshirðinni voru drengir tveir, annar átján, hinn nítján vetra. Þeir voru mjög gefnir fyrir tafl og sátu því löngum inni yfir því. Herbergi þeirra var næst herbergi drottningar, og var það oft, að þeir heyrðu eitthvað til drottningar á sumum tímum dagsins. Einn dag veittu þeir því meiri eftirtekt en áður, er þeir heyrðu til drottningar.

Lögðu þeir þá hlustirnar við rifu, er var á veggnum milli herbergjanna, og heyrðu glöggt, að drottning sagði: "Þegar ég geispa lítinn geispa, þá er ég lítil og nett jómfrú; þegar ég geispa hálfan geispa, þá er ég sem hálftröll; þegar ég geispa heilan geispa, þá er ég sem altröll."

Í því drottning sagði þetta, setti að henni ógleði svo mikla, að hún geispaði ógurlega. Við þetta brá henni svo, að hún varð allt í einu að illúðlegri tröllkonu; kom þá upp úr gólfinu í herbergi drottningar þríhöfðaður þussi með fullt trog af keti; hann heilsar þar systur sinni og setur fyrir hana trogið. En hún sest að því, sem í því var, og léttir ekki, fyrr en hún hefur lokið öllu úr troginu.

Sveinarnir sáu allar þessar aðfarir, en ekki heyrðu þeir þau systkinin talast neitt við. En það furðaði þá, hversu gráðuglega drottning hámaði í sig ketið og hversu mikið hún rúmaði af því, og þá eigi lengur, að hún snæddi svo lítið, er hún sat með kóngi yfir borðum. Þegar hún var búin úr troginu, hvarf þussinn með það aftur sama veg niður, sem hann hafði komið, en drottning tók á sig mennska mynd.

Nú víkur sögunni þangað, sem sveinninn kóngsson var fyrir nokkru kominn til fóstrunnar. Bar það við eitt kvöld, er hún hafði kveikt ljós og hélt á kóngssyni, að nokkrar fjalir spruttu upp úr gólfinu á herbergi hennar. Þar næst kom þar upp undurfríð kona á línklæðum einum, þeim er konur hafa næst sér, með járnspöng um sig miðja, og lá þar úr hlekkjafesti svo langt niður sem til sást.

Kona þessi gekk að barnfóstrunni og tók af henni barnið, faðmaði það að sér og rétti það aftur að fóstrunni. Síðan fór hún niður sömu leið, sem hún kom, og luktist gólfið yfir höfði hennar. Þó kona þessi talaði ekki orð frá munni, varð fóstran mjög hrædd, en lét ekki á neinu bera.

Kom svo annar dagur, og fór allt á sömu leið og áður, að hin hvítklædda kona kom í sama mund sem hinn fyrra dag, tók barnið, lét að því sem best og fékk það svo aftur fóstru þess. En er hún ætlaði að fara burt aftur, sagði hún með sorgarsvip: "Af eru tveir og ekki eftir nema einn," síðan fór hún hina sömu leið niður aftur og gólfið í samt lag.

Nú varð barnfóstran enn miklu hræddari en áður, er hún hafði heyrt konuna mæla þessi orð. Hugði hún, að barninu mundi, ef til vildi, vera einhver hætta búin, þó henni bæði litist í alla staði góðlega á konuna ókenndu, er komið hafði, og hún hafði látið að barninu sem það væri frá henni skorið. Henni þótti það ískyggilegast, er kona þessi hafði sagt: "Og ekki eftir nema einn", því hún hélt, að með því mundi hún skilja, að nú væri einn eftir af þremur dögum, er hún hefði komið til sín í tvo daga.

Fóstran réð það því af, að hún fór til kóngs og sagði honum upp alla sögu og bað hann fyrir alla muni að vera sjálfur viðstaddur í herbergi sínu um sama leyti daginn eftir og kona þessi væri vön að koma, og hét kóngur henni góðu um það.

Daginn eftir kom kóngur í herbergi barnfóstrunnar litlu fyrir þennan tíma, sem ákveðinn var, og settist þar á stól með brugðið sverð í hendi. Því næst spruttu upp fjalirnar í gólfinu sem fyrri, og kom konan þar upp hin hvítklædda með járnspöngina og hlekkjafestina, sem áður er getið. Kóngur þekkir þar þegar konu sína, og verður honum það fyrst fyrir, að hann heggur sundur hlekkjafestina, sem niður lá úr járnspönginni. En við það urðu dunur svo miklar og dynkir að heyra niðri í jörðinni, að kóngshöllin lék öll á reiðiskjálfi, og hugði enginn annað en hvert hús mundi hrapa í borginni og um koll keyra. Loksins leið þessi ókyrrleiki og undirgangur af, svo menn koma til sjálfs sín. Féllu þau kóngur og drottning í faðma.

Síðan sagði hún honum upp alla sögu, hvernig tröllkonan kom að skipinu á nökkvanum, er allir sváfu, og færði sig úr drottningarskrúðanum og frá ummælum hennar og álögum. Hún sagði frá því, er hún var komin svo langt á nökkvanum, er leið sjálfkrafa áfram undir henni, að hún sá ekki skipið lengur, hefði sér fundist hún fara gegnum svo sem myrkva nokkurn, uns nökkvinn lenti hjá þríhöfðuðum þussa, er hefði tekið sig og viljað þegar sofa hjá sér. En hún kvaðst hafa aftekið það í alla staði.

Hún sagði, að þussinn hefði sett sig þá í einhýsi um hríð og hótað sér, að hún skyldi þaðan aldrei út fara, nema hún héti sér blíðu sinni, en vitjað hefði hann um sig öðru hverju. Þegar nokkuð leið frá, kvaðst hún hafa farið að hugsa sig um, hvað hún skyldi nú til bragðs taka til að losna úr trölla höndum.

Sagðist hún þá hafa gefið honum kost á að sofa hjá sér, ef hún mætti áður sjá son sinn ofanjarðar þrjá daga í beit; hefði hann lofað sér því, en látið þó um sig járnspöng þessa með hlekkjafestinni úr, og hefði hann bundið öðrum enda festarinnar um sig miðjan, og því mundu hinir miklu dynkir hafa orðið, er kóngur hjó á festina, að risinn hefði hlunkað niður allan undirganginn, er svo snögglega slaknaði á festinni, því bústaður risans væri rétt undir borginni, og því hefði ókyrrleikinn orðið svo mikill, er hann hlunkaði niður, og að öllum líkindum mundi hann hafa rotast er hann kom niður, og hefðu þetta víst verið fjörbrot hans, er borgin skalf.

En því kvaðst drottning hafa áskilið sér að sjá son sinn þrjá daga í röð, að með því móti mundi sér leggjast eitthvað til líknar og lausnar, eins og nú væri fram komið.

Nú þóttist kóngur sjá, hversu það vissi við, að kona sú, er hann hafði búið við um stund, hefði verið svo óþýð, og lét hann þegar draga belg á höfuð henni og berja hana í hel með grjóti; síðan lét hann festa hana aftan í ótemjur, er tættu hana sundur.

Eftir það sögðu og sveinar þeir, er fyrr var getið, að heyrðu og sáu til drottningar, frá því, er fyrir þá hafði borið, því áður þorðu þeir það ekki fyrir ríki hennar.

Að þessu búnu sest drottning í tign sína, og hugnast öllum vel að henni. En það er frá barnfóstrunni að segja, að kóngur og drottning giftu hana stórhöfðingja einum og gjörðu hana að heiman með mikilli rausn.


Download XMLDownload textStory